Þau Ólafur Elínarson, Helga Birna Brynjólfsdóttir, Friðrik Björnsson og Stefán Atli Thoroddsen hafa verið ráðin til Gallup í lykilstöður hjá félaginu. Ólafur er nýr sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup, Helga Birna Brynjólfsdóttir hefur tekið við starfi sem skrifstofustjóri hjá Já og Gallup, Friðrik Björnsson og Stefán Atli Thoroddsen eru nýir viðskiptastjórar á sviði markaðsrannsókna hjá Gallup.

„Rekstrarumhverfi fyrirtækja er síbreytilegt og mikilvægi gæðaupplýsinga hefur sjaldan verið meira, hjá Gallup leggjum við áherslu á að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu sem byggir á vandaðri og traustri aðferðafræði. Það er mikill fengur fyrir Gallup að fá til liðs við félagið öflugan hóp nýrra starfskrafta með reynslu víða úr atvinnulífinu og munu þau koma til með að styðja við uppbyggingu félagsins til framtíðar," segir Ólafur Elínarson, sviðsstjóri markaðsrannsókna Gallup.

Ólafur Elínarson

Ólafur hefur starfað sem viðskiptastjóri hjá Gallup í 10 ár, verið aðferðastjóri eigindlegra rannsókna og sinnt alþjóðlegum verkefnum. Hann er með BA gráðu í Sálfræði frá Háskóla Íslands og hefur sinnt stundakennslu í eigindlegri og megindlegri aðferðafræði bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Ólafur er kvæntur Evu Björk Valdimarsdóttur og 39 ára gamall.

Helga Birna

Helga Birna Brynjólfsdóttir

Helga Birna hefur margra ára reynslu úr atvinnulífnu og hefur starfað hjá leiðandi fjármála- og fjarskiptafyrirtækjum á Íslandi, meðal annars Símanum, Borgun og Arion banka. Helga er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er fyrrum landsliðskona í handbolta og margfaldur Íslandsmeistari með meistaraflokki Víkings. Helga Birna er 43 ára gömul og gift Þórhalli Ágústssyni.

Friðrik Björns

Friðrik Björnsson

Friðrik er sérfræðingur í markaðsrannsóknum og starfaði hjá Háskóla Íslands á árunum 2014-2016 sem kennari í markaðsáætlanagerð, rannsóknum, tölfræði, og rannsóknum í markaðsfræðum. Friðrik er með M.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá Háskóla Íslands. Friðrik er 27 ára gamall.

Stefán Atli

Stefán Atli Thoroddsen

Stefán er stofnandi og starfaði jafnframt sem framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Jungle Bar. Fyrirtækið sérhæfði sig í framleiðslu og markaðsetningu matvæla, sem innihéldu skordýr. Fyrirtækið tók meðal annars þátt í Startup Reykjavík og hlaut 3. verðlaun í Gullegginu. Ennfremur var það valið sem eitt af tíu umhverfisvænustu sprotafyrirtækjum Evrópu árið 2015 af Climate-Launchpad. Stefán er með M.Sc. gráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Stefán er 30 ára gamall, nýbakaður faðir og í sambúð með Snædísi Gígju Snorradóttur.