Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup hefur nær þriðjungur þjóðarinnar veitt Úkraínumönnum stuðning með beinu fjárframlagi og ríflega fjórðungur hefur keypt vöru eða þjónustu þar sem ágóði eða hluti hans fer til stuðnings málefninu. Hátt í fimmtungur hefur gefið fatnað eða aðra hluti í söfnun fyrir Úkraínumenn. Einhverjir hafa stutt við Úkraínumenn á annan hátt, m.a. með því að bjóða fram húsnæði fyrir flóttafólk eða bjóða fram krafta sína sem sjálfboðaliðar.

Hefur þú gert eitthvað af eftirfarandi til að styðja við Úkraínumenn?

Fólk er líklegra til að hafa veitt Úkraínumönnum stuðning með beinu fjárframlagi eftir því sem það hefur meiri menntun. Þau sem kysu Pírata eru líklegust til að hafa veitt beinan fjárstuðning.

Þau sem hafa veitt Úkraínu stuðning með beinu fjárframlagi - greining

Konur eru líklegri en karlar til að hafa gefið fatnað eða aðra hluti í söfnun fyrir Úkraínumenn.

Þau sem hafa gefið fatnað eða aðra hluti í söfnun til stuðnings Úkraínu - greining út frá kyni

Stríðsglæpir

Nær allir landsmenn eru sammála um að Rússar hafi framið stríðsglæpi í Úkraínu og eigi að svara til saka fyrir alþjóðlegum dómstólum. Könnunin var gerð dagana 25. mars – 5. apríl en 29. mars birtust fréttir af því að mannúðarsamtökin Amnesty International hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Rússar hefðu framið stríðsglæpi í úkraínsku borginni Mariupol.

Sammála eða ósammála því að Rússar hafi framið stríðsglæi í Úkraínu og eigi að svara til saka fyrir alþjóðlegum dómstólum?

Móttaka flóttafólks

Langflestir landsmenn telja að við Íslendingar séum að standa okkur vel þegar kemur að móttöku flóttafólks frá Úkraínu, eða nær 84% á meðan tæplega 4% telja að við séum að standa okkur illa.

Hversu vel eða illa telur þú Íslendinga standa sig þegar kemur að móttöku flóttafólks frá Úkraínu?

Konur telja frekar en karlar að við séum að standa okkur vel í móttöku flóttafólks og fólk telur það frekar eftir því sem það er eldra. Þau sem kysu Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis nú telja helst að við séum að standa okkur vel en síst þau sem kysu Pírata eða Vinstri græn.

Hversu vel eða illa telur þú Íslendinga standa sig þegar kemur að móttöku flóttafólks frá Úkraínu? - greining.

Spurt var:

 • Hefur þú gert eitthvað af eftirfarandi til að styðja við Úkraínumenn?
  • Veitt stuðning með beinu fjárframlagi
  • Gefið fatnað eða aðra hluti í söfnun
  • Keypt vöru/þjónustu þar sem ágóði eða hluti hans fer til stuðnings málefninu
  • Boðið fram húsnæði fyrir flóttafólk
  • Boðið fram krafta sem sjálfboðaliði til stuðnings flóttafólki
 • Hversu sammála eða ósammála ertu eftirfarandi fullyrðingu?
  • Rússar hafa framið stríðsglæpi í Úkraínu og eiga að svara til saka fyrir alþjóðlegum dómstólum
 • Hversu vel eða illa telur þú Íslendinga standa sig þegar kemur að móttöku flóttafólks frá Úkraínu?

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 25. mars til 5. apríl 2022. Heildarúrtaksstærð var 1.637 og þátttökuhlutfall var 52,5%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.